Photoset
Photoset

Flutningurinn var ömurlegur.
Eða, nei, flutningurinn var góður… vikan upp að honum var ömurleg og mér leið reglulega eins og ég væri á barmi taugaáfalls.
Það var erfitt að pakka og ég var með miklar áhyggjur af Elíasi.
Sem betur fer eigum við mjög gott fólk að og þegar loksins kom að þessu þá tók þetta enga stund.
Það var samt alveg kommentað á það að miðað við allt draslið okkar þá væri þetta eins og við værum búin að búa í 30 ár.

Það var líka erfitt að þurfa að sofa ein í húsinu fyrstu dagana.
Kisurnar voru allt of uppteknar við að skoða sig um til að nenna að eyða tíma með mér, og það hafði gleymst að setja upp loftljósin inni í tölvuherbergi og borðstofu svo það var bara dimmt og einmanalegt…
Ég kom mér svo loksins í það að hengja upp ljósin, en sem betur fer var Elíasi hleypt heim nokkrum dögum seinna því það var eiginlega ekkert skárra að vera einmana í birtu.

Ég þurfti að fara nokkrar ferðir til að ná í föt og smádót sem varð eftir á Seljaveginum en það hafðist á endanum (Aygo-inn tekur ekki meira en 6/7 bananakassa í einu) , og svo hjálpaði Gerða mér að þrífa íbúðina.

Núna erum við bara að koma okkur fyrir og venjast því að keyra til Reykjavíkur á hverjum morgni.
Þetta kemur allt með tímanum… 

Photoset
Photoset

Það var aldrei neinn tími (eða internettenging) til þess að hlaða upp myndum af framkvæmdunum, og ég man ekkert hvað ég ætlaði að skrifa við þær allar…
Skiptir svosem ekki máli.

Sumarfríið mitt hvarf í framkvæmdir og flutninga, en sumarfríið hans Elíasar hvarf í veikindi og spítalavist :(
Áður en hann varð veikur náði hann samt að plata bróður sinn í að hjálpa sér við að “slípirokka” niður restina af hrauninu í eldhúsinu.
Það var skítug, skítug, skítug vinna og ég forðaði mér upp og málaði efri hæðina á meðan.
Svo þurftum við auðvitað að fara í Byko og leigja iðnaðarryksugu sem var næstum stærri en bíllinn okkar til að sjúga upp allt rykið sem endaði ekki ofaní/á okkur… samt ekki fyrren við vorum næstum búin að bræða úr litlu ræfilslegu ryksugunni okkar.

Gerða og Dísa voru algjörir bjargvættir og komu reglulega til að hjálpa mér að þrífa og mála; án þeirra hefði ég aldrei náð að klára svona mikið fyrir flutningana.

Photoset

Mánudagurinn 4.8.14

Það leit allt út eins og það hefði verið haldið svakalegt partí í húsinu yfir verslunarmannahelgina.

Við nenntum eiginlega ekki að gera neitt svo ég rúllaði aðeins yfir loftið í borðstofunni, blettaði í loftið í stofunni og penslaði eina umferð yfir loftlistana… þar sem ég komst að.
Elías gerði heiðarlega tilraun til að pússa upp tröppurnar í stiganum en gafst svo upp afþví þetta leit soldið út fyrir að hafa verið málað, svo hafi verið límt niður teppi, það rifið af, og svo málað aftur ofan í teppalímið.

Eftir þetta dunduðum við okkur við það að mála aðra umferð yfir baðherbergið, og á meðan við biðum eftir að það þornaði (ég ætlaði sko að skella mér í bað eftir helgina) þá setti Elías upp ljósið sem ég var búin að láta mig dreyma um síðan við komum þarna inn fyrst.

Það er góð tilfinning að ímynda sér eitthvað og sjá það svo í raunveruleikanum alveg nákvæmlega eins og þú ímyndaðir þér það :)

Photoset

Sunnudagurinn 3.8.14

Á sunnudeginum byrjaði ég á því að mála veggina inni í borðstofu og stal þar af leiðandi vinnunni hans Ragga sem neyddist til þess að hjálpa Elíasi inni í þvottahúsi.
Helga bauðst hins vegar til þess að skrúbba gluggana og gera þá tilbúna fyrir lökkun, og auðvitað gat ég ekki sagt nei við því :)
Á endanum gafst Raggi upp á þvottahúsinu (skil hann mjög vel) og byrjaði að þrífa inni í eldhúsi; hann kippti eldavélinni frá veggnum og þreif margra ára fitu og reykingaskán af öllu þar í kring.
Vinnulaunin hans fyrir allt þetta voru mp3 spilari sem hann fann undir eldavélinni.

Seinna um daginn kom Alli í heimsókn til þess að skoða herlegheitin og sagði það sjálfur að honum hefði ekki einu sinni dottið í hug að fara úr vinnugallanum áður en hann kom, sem var fínt því Elías réð hann strax í það að rífa gólfdúkinn af þvottahúsgólfinu.
Strákarnir byrjuðu svo að plana hvernig væri hægt að útbúa niðurfall í gólfið og ég sé fram á að þetta verði rosa flott hjá þeim, og þægilegt fyrir mig :P

Þegar ég var búin að mála borðstofuna fór ég að mála baðherbergið.
Málningin sem var valin þar inn lyktaði eins og kattarhland, og það var ömurlegt að mála með henni…
þetta er einhver gerlavarin háglans-klísturmálning sem á að vera rosa fínt að þrífa, og það er eins gott að það sé rétt því annars mála ég yfir þetta með venjulegri málningu.
En það er svakalegur munur að sjá baðherbergið svona hvítt, það stækkaði alveg helling við litabreytinguna.

Photoset

Laugardagurinn 2.8.14

Föstudagurinn hvarf í leti, og það eina sem var gert þá var að skipta um ljósaperur inni á baði.

Á laugardaginn byrjaði ég á því að mála ofan í skilin á milli loftplatnanna inni í stofu og Elías fór og skrúfaði í sundur barnahliðið sem var fyrir stiganum á efri hæðinni.
Eins ræfilslegt og hliðið var þá átti það greinilega að halda, það voru u.þ.b þrjátíu risaskrúfur sem festu það við gólfið og veggina.

Helga og Raggi (tengdó) komu svo í heimsókn/vinnu; Helga byrjaði strax á fullu úti í garði og Raggi undirbjó borðstofuna fyrir málverk.
Eins og síðast þá fékk Elías það verk að vesenast í öllu rafmagnstengdu, nema í þetta skipti náði hann að bræða uppáhalds skrúfjárnið sitt þegar hann ætlaði að skrúfa eina af innstungunum af veggnum.

Þegar fínvinnan var búin og við Raggi byrjuðum að mála loftið, fór hann í stærsta og mikilvægasta verkefnið: að rífa mygluvegginn í þvottahúsinu og koma honum út.
Niðurrifið gekk miklu betur en ég þorði að vona og maðurinn minn stóð sig eins og hetja með hamarinn, meitilinn og kúbeinið :)
Um leið og krossviðarplöturnar voru fjarlægðar þá breyttist loftið í þvottahúsinu til hins betra.

Á meðan hann var að rífa vegginn þá var ég að fá hálsríg á því að mála á milli platnanna í loftinu, sem tók nánast allan daginn.
Á tímabili var orðið sárt að horfa eitthvað annað en upp…
Þetta loft verður ALDREI málað aftur!

Photoset

Sunnudagurinn 27.07.14

Það var ofboðslega erfitt að koma sér af stað og það var svona pínu letiblóð í manni…
Elías byrjaði samt strax á fullu í eldhúsinu á meðan ég rúllaði eina umferð yfir “græna herbergið” sem er núna orðið hvítt eins og stofan.
Gerða syst bauðst til þess að þrífa fitu/reykingaskánina af skápunum úr eldhúsinu og ég gat ekki sagt nei við því afþví ég sá fram á að ég hefði verið með æluna í kokinu allan tímann ef ég hefði þurft að gera það :/

Svo var klukkan bara allt í einu orðin fimm og við ákváðum að segja þetta gott í bili; við verðum þá kannski búin að jafna okkur á vinnutörninni áður en við byrjum á þeirri næstu :)

Photoset

Laugardagurinn 26.07.14

Á laugardeginum gekk Elías strax í það að skrúfa allt í sundur… dósirnar á veggjunum, ljósin úr loftinu, og ógeðslega fataskápinn sem var inni í þvottahúsi.
Svo skutlaðist hann til Reykjavíkur til þess að kaupa eitthvað til þess að ná restinni af málningunni af flísunum, og til að athuga hvort einhver gæti sagt okkur til um hvernig við ættum að gera útaf við hraunið á veggjunum.

Sigurður Helgi kom og kláraði að orfa garðinn, og allt í allt voru þetta sex troðfullir svartir ruslapokar af frumskógi!

Á meðan Siggi sló fór ég að mála :)
Ég var svakalega spennt og ákvað að byrja á loftinu inni í “græna herberginu” og komst að því þegar ég var að kítta meðfram og mála fínu flottu loftlistana að þeir eru úr frauðplasti.
Og ég komst líka að því að ég er með athyglisbrest og mér finnst hundleiðinlegt að mála loft… en svo heppilega vildi til að tengdó kíktu í heimsókn þegar ég var nýbyrjuð á loftinu inni í stofu, og þar sem Raggi tók málningargallann sinn með þá fékk hann bara það skemmtilega verk að halda áfram með það sem ég nennti ekki að klára.
Ég er reyndar mjög fegin, hann stóð sig eins og hetja og gerði þetta mun betur en ég hefði nokkurntímann gert :P
Helga fór strax út í garð að stússast, sem var örugglega besti staðurinn til að vera á afþví það var sól og mjög gott veður :)

Þegar Elías kom heim þá byrjaði hann að reyna að drepa hraunið… sem kom svo í ljós að var veggfóður sem við byrjuðum bara að kroppa af með kíttispaða og þolinmæði.
Reyndar er neðsti parturinn af einum veggnum svolítið eins og hann hafi verið gerður úr spartli og það virðist vera nánast ómögulegt að ná veggfóðrinu af þar, en við hljótum að finna eitthvað útúr því.
Gerða syst mætti svo á svæðið og við réðum hana strax í að kroppa hraunið af með okkur, og við vorum að til ellefu/hálf tólf.

Photoset

Föstudagurinn 25.07.14

Á föstudaginn fór ég af stað með það mikla markmið að koma Senseo kaffivélinni fyrir, skella upp máningarprufum og gera allt tilbúið fyrir málverk…
Það tók sirka klukkutíma (með heimsókn frá nágrönnunum) en restin af deginum fór í það að skrúfa þessar þrjár hurðar sem Elías skildi eftir á eldhúsinnréttingunni og kroppa málningu af flísunum inni í eldhúsi.
Hver málar yfir flísar, og afhverju í ósköpunum?

Stóri litli frændi minn hann Sigurður var svo ráðinn í heyskap :)
Hann þurfti að dröslast með sláttuorfið út um allan garð og náði að troðfylla þrjá svarta ruslapoka í fyrstu umferð.
Þvílíkur dugnaður!

Þegar ég var búin að sækja Elías í vinnuna þá skelltum við okkur í Byko til þess að kaupa þessa blessuðu málningu sem tók heila eilífð að velja, og til þess að leigja vél til þess að pússa niður hraunið á veggjunum og loftinu í eldhúsinu… en auðvitað tók það okkur svo langan tíma að ákveða hvað við þyrftum nauðsynlega að eiga til þess að geta málað að það var búið að loka tækjaleigunni, svo við ákváðum að láta það bara eiga sig.

Seinna um kvöldið fórum við svo og skrúfuðum í sundur sjónvarpssamstæðuna sem var inni í stofu.
Eða við skrúfuðum hana lausa og Elías karate-sparkaði henni í sundur…
Hún endaði svo út um alla neðri hæð afþví hún var í milljón pörtum.
Ljóta draslið.